Aðventukaka með hvítsúkkulaðimús og piparkökubotni

Þessa köku er tilvalið  að gera daginn áður en ætlunin er að bera hana fram til að vinna sér í haginn. Við hjá Vorhús erum svo heppnar að eiga vini sem reka fyrirtækið Matlifun og þau sendu okkur þessa uppskrift og smakk sem rann ljúflega niður einn eftirmiðdaginn 😀 Einfaldlega dásamlega jólaleg aðventukaka sem enginn ætti að missa af!

 

Botn

70 g fínmalaðar piparkökur

50 g sykur

2 egg

½ tsk. lyftiduft

 

Hitið ofninn í 170°C með blæstri.

Þeytið egg og sykur í hrærivél þar til ljóst og létt.

Bætið lyftidufti og piparkökum fínmöluðum varlega saman við.

Setjið í hringlaga form (við notuðum 22 cm  form) með bökunarpappír.

Bakið í 15-20 mínútur.

 

Hvítsúkkulaðimús

320 g safi úr mandarínum

3 matarlímsblöð

200 g hvítt súkkulaði

320 g léttþeyttur rjómi

5 piparkökur, muldar

1 mandarína

 

Setjið matarlímsblöðin í kalt vatn í minnst 5 mínútur.

Sjóðið mandarínusafann niður til helminga þar til eftir eru  160 g af safa.  Þegar safinn hefur soðið niður er hvíta súkkulaðið sett saman við, þar næst matarlímsblöðin. Ef blandan byrjar að stífna mikið er hægt að hita hana aðeins á hellu til að ná betri áferð.

Látið blönduna kólna niður í ca. 35°C.

Blandið 1/3 af léttþeytta rjómanum varlega saman við hvítsúkkulaðiblönduna þar til rjóminn blandast fullkomlega. Því næst er restinni af rjómanum blandað varlega saman við.

 

Klæðið form með plastfilmu að innan.

Leggið piparkökubotninn neðst og hellið helming músarinnar yfir.

Bætið við léttmuldum piparkökum og 10 niðurskornum mandarínubátum (ca. 1 mandarína).

Hellið restinni af músinni yfir. Látið stífna í ísskáp í minnst 6 klukkustundir.

 

Matlifun veitingaþjónusta er rekin af hjónunum Jóhönnu Hildi Ágústsdóttur & Sveini Hólmkelssyni. Fyrirtækið er starfandi á Akureyri og leggur áherslu á norðlenska framleiðslu.

Matlifun framleiðir foreldaðar máltíðir ásamt því að þróa handgerðar sælkeravörur sem notaðar eru í máltíðirnar.

Markmið Matlifunar er að einfalda betri matarupplifanir með því að aðstoða fyrirtæki og einstaklinga við að spara tíma við gerð á flóknum eða tímafrekum réttum.

Sælkeravörurnar má nálgast í verslunum bæði á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu fyrirtækisins matlifun.is