Klassískt bananabrauð

Það er skemmtilegt að segja frá því að opinber dagur bananabrauðs er 23. febrúar og að fyrstu sögur sem fara af bananabrauði eru frá 1870. Fyrstu uppskriftirnar af bananabrauði koma þó ekki fram fyrr en í amerískum matreiðslubókum um 1930 en þá var það flokkað sem eftirréttur. Sagan segir að bananabrauð varð fyrst vinsælt þegar matarsódi og lyftiduft kom fram á mörkuðum en aðrir segja að vinsældir bananabrauðs hafi verið vegna markaðsvinnu aðila sem seldu matarsóda og lyftiduft, alls ósannað þó. Fræðimenn hafa þó bent á að bananabrauð varð mjög vinsælt á kreppuárunum í Bandaríkjunum þar sem hagsýnar húsmæður fundu not fyrir úrelta banana sem þær vildu ekki henda til einskis. Síðan þá hefur bananabrauðið fagnað miklum vinsældum um heim allan enda fljótlegt og auðvelt og einstaklega gott brauð sem flest allir á heimilinu elska.

Uppskrift:

2 bollar hrásykur (eða önnur sæta)

2 egg

4 stappaðir vel þroskaðir bananar

4 bollar hveiti (má líka setja 3 bolla spellt)

2 tsk matarsódi

2 tsk lyftiduft

½ tsk salt

Allt hrært saman og skellt í aflangt form.

Bakað við 170 C° blástur í ca 40-45 mín.

Njótið!