“Sú allra besta”

Ég er einlægur aðdáandi Evu Laufeyjar og á allar hennar uppskriftabækur sem ég held mikið upp á. Segja má að ég sé svona “want-to-be” Eva Laufey og baka því oft upp úr bókunum hennar. Því miður eru kökur mínar útlitslega aldrei eins fallegar og hjá Evu, því er nú verr, en það geta ekki allir verið Eva Laufey 😊svo ég held bara áfram að æfa mig í baksturslistinni.

Í dag ákvað ég að gera smá tilraun á eigin vegum. Kaka dagsins er því úr ýmsum áttum – samansett af ýmsum kökuuppskriftum – allar mínar uppáhaldsuppskriftir settar saman í eina köku. Og viti menn, kakan er hrein dásemd 😊 Þarna blandast saman ljós botn og dökkur blautur súkkulaði botn, súkkulaðiglassúr úr ekta súkkulaði og sírópi og að lokum dásamlegt rjómasúkkulaðikrem yfir alla kökuna. Uppruni hugmynda kemur frá afmæliskökunni sem stelpurnar mínar elska, súkkulaðiuppskriftin sem nota á í rice krispy kökur og er dásamleg ein og sér, frönsk súkkulaðikaka og rjómaostakrem af gulrótaköku upp úr uppskriftarbók Evu með súkkulaði“twist“.

Við hjá Vorhús óskum ykkur kæru vinir nær og fjær til hamingju með lýðveldisafmælið og vonum að þið njótið samveru við vini og vandamenn og fáið mögulega væna sneið af ykkar uppáhaldsköku.

Kærar kveðjur,

Fjóla Karls

Framkvæmdastjóri Vorhús

Uppskriftir

Ljós botn:

2 egg þeytt þar til þau eru orðin ljós og þá er 2,5 dl af sykri þeytt saman við. 150 gr af smjöri brætt og sett út í. 1 tsk vanilludropar og 2 tsk af matarsóda og 1 tsk af lyftidufti hrært út í. 0,5 dl af rjóma og 5 dl af hveiti að lokum sett út í. Bakað í hringformi ca 20-30 mín. Kæla svo botn.

Súkkulaði(blautur)botn

4 eggjarauður þeyttar vel saman og 2 dl af sykri hrært saman við. 200 gr af suðusúkkulaði brætt í potti saman við 200 gr af smjöri. Allt þeytt saman. Að lokum skal bæta við 1,5 dl af hveiti og hræra vel. Bakað í hringlaga formi (gott að hafa smjörpappír í botninn til að kakan losni vel frá eftir bakstur) í ca. 20 mín. Kæla svo botn.

Krem í miðju

Bræða saman 100 gr af smjöri og 200 gr af súkkulaði í potti og setja 3 msk af sírópi í lokin. Hræra vel saman. Helmingur af þessari blöndu fer í sér skál til að búa til kremið í miðjunni. Út í þá skál er sett „dass“ af flórsykri og vatn til að þynna blönduna þar til úr verður mjúkt og þokkalega þykkt glassúrskrem. Kremið er síðan sett á ljósa botninn (kaldan botn) og svo er súkkulaði botninn settur ofan á.

Súkkulaði rjómaostakrem

Notið 300 gr af Philadelphia rjómaosti og 150 gr af smjöri (mjúkt við stofuhita). Setjið saman í skál og þeytið vel. Setjið restina af súkkulaðiblöndunni (hinn helminginn hér að ofan) út í og hrærið. Setjið 1 tsk vanilludropa út í og þykkið kremið með flórsykri (ca. 300-400gr) þar til kremið er orðið silkimjúkt og viðráðanlegt til að setja á kökuna.

Kælið kökuna í að lágmarki 1 klst og njótið með ykkar nánustu 😊