Páskaboð – nammibar og kökuboð – hugmyndabanki Vorhús

Á Páskum er tilvalið að bjóða vinkonum saman í kaffiboð og gera vel við sig og aðra. Hér eru nokkrar skemmtilegar hugmyndir sem auðvelt er að framkvæma á stuttum tíma.

Litli nammibarinn

Hér er kassi sem keyptur var í Pier notaður sem nammibar. Skemmtileg framsetning þar sem litrík egg af ýmsum toga njóta sín.

Milljón kaloríukakan – dúndur Páskabomba

Þessi kaka er auðveld í framkvæmd og er full af súkkulaði, pekanhnetum og karamellu – eitthvað fyrir alla!

Ofninn er hitaður í 175°C áður en hafist er handa. Fyrst er botninn útbúinn og hálfbakaður í ofninum (10 til 15 mín ca). Síðan er pekanhnetum stráð yfir og karamellunni helt yfir allt saman og svo er allt saman sett aftur inní ofn til að fullbaka botninn (10 mín ca). Þegar kakan er tekin út úr ofninum er súkkulaðibitum stráð yfir og kakan látin kólna. Þegar kakan hefur kólnað aðeins er hún skorin niður í bita og borin fram.

Súkkulaðibotn

130 gr smjör brætt í potti ásamt 200 gr af suðursúkkulaði og látið síðan kólna aðeins. Á meðan eru 6 egg þeytt vel saman í hrærivél og síðan er 3 dl af sykri stráð smám saman saman við eggin. Að því búnu er 3 dl af hveiti sáldrað saman við eggjasykurhræruna ásamt 2 tsk af salti og 2 tsk af vanilludropum. Að því búnu er smjör-súkkulaðiblöndunni bætt saman við.  Hægt er að nota ofnskúffu undir botninn til baksturs.

Karamella

130 gr af smjöri brætt í potti og 2 dl af púðursykri bætt út í. Hræra vel í potti þar til að innihaldið sýður (bobblar). Taka pott af hellunni og kæla lítillega áður en 2 msk af rjóma er bætt út í.

Sáldrið pekanhnetum yfir hálfbakaðan botninn og hellið karamellunni yfir og setjið inn í ofn.

Þessi kaka slær í gegn hjá fjölskyldunni og í vinkonuhópnum.

Hægt er að frysta bitana sem ekki klárast til að eiga til góða 😊

Páskaskreytingar

Páskarnir eru iðulega litríkir að vanda og því ætti kaffihlaðborðið að vera það líka. Skemmtilegt er að skreyta kökur með lifandi blómum, nota papparör með gyllingu og litríkar servíettur. Eins er gaman að eiga fallegt kaffistell til að nota, kökudisk á fæti og löber í stíl frá Vorhús í bland við Iittala skálar og aðra fylgihluti.

Njótið Páskanna kæru vinir og vonandi eigið þið góðar og kærar stundir í faðmi vina og fjölskyldu 😊

Gleðilega Páska